Heilsugæsla
Heilsuvernd skólabarna í Breiðagerðisskóla er á vegum Heilsugæslunnar í Efstaleiti.
Heilsuvernd Skólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung- og smábarnavernd. Helstu áherslur í heilsuvernd skólabarna eru forvarnir, fræðsla, skimanir og bólusetningar. Meginmarkmið er að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Starfsfólk heilsuverndar vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð þeirra að leiðarljósi.
Skólahjúkrunarfræðingur Breiðargerðisskóla er Alenka Zak og er viðverutími eftirfarandi. Þriðjudagur kl 10-14, Miðvikudagur kl 10-14.
Netfangið er breidagerdisskoli@heilsugaeslan.is og sími 411-7314
Hjúkrunarfræðingur skólaheilsugæslu starfar samkvæmt lögum, reglugerðum og tilmælum Landlæknis. Hjúkrunarfræðingur er bundinn þagnarskyldu.
Skimanir og viðtöl:
Skipulagðar skimanir eru framkvæmdar í 1., 4., og 7. bekk en þá er skimað fyrir ákveðnum heilbrigðisvandamálum. Skimanirnar felast í mælingum á hæð, þyngd og sjónskerpu. Ef frávik reynist í skimun er ávallt haft samband við forráðamann.
Þegar skimanir fara fram eru einnig tekinn heilsueflandi viðtöl um lífsvenjur og líðan.
Bólusetningar:
Í 7. bekk fara fram skipulagðar bólusetningar. Bólusett er við mislingum, hettusótt og rauðum hundum ( ein sprauta ) og auk þess eru stúlkur bólusettar gegn HPV (Human papilloma veirum) sem geta valdið leghálskrabbameini. HPV bólusetning er gefin tvisvar með 6 mánaða millibili. Áður en bólusetning fer fram er sendur tölvupóstur til foreldra.
Aðrar upplýsingar:
Óhöpp eða slys:
Ef óhapp eða slys verður á skólatíma sér starfsfólk skólans um fyrstu hjálp. Þurfi nemandi að fara á heilsugæsluna eða slysadeild skulu foreldrar fara með barninu. Því er mikilvægt að skólinn hafi öll símanúmer þar sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma.
Langveik börn:
Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingur viti af börnum sem eru með fötlun eða langvinnan og/eða alvarlega sjúkdóma, t.d sykusýki, ofnæmi, flogaveiki, blæðingarsjúkdóma eða aðra alvarlega sjúkdóma. Þessum börnum sinnir heilsuvernd skólabarna í samráði við foreldra.
Fræðsla / heilbrigðishvatning / forvarnir
Hjúkrunarfræðingur sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu í öllum bekkjardeildum og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Hann nýtir þau tækifæri sem gefast til að fræða börnin og vekja þau til umhugsunar og ábyrgðar á eigin heilsu.