Skip to content

Um skólann

Breiðagerðisskóli er barnaskóli fyrir nemendur í 1. - 7. bekk. Í skólanum eru um það bil 400 nemendur eða 50 - 60  nemendur í hverjum árgangi. Flestir nemendur skólans koma frá leikskólunum Jörfa, Vinagerði og  Garðaborg. Að loknum 7. bekk flytjast flestir nemendur skólans yfir í Réttarholtsskóla þar sem þeir ljúka grunnskólagöngu sinni.

Skólinn leggur áherslu á að nýta nánasta umhverfi til útikennslu árið um kring. Skólinn er staðsettur í fallegu grónu hverfi í göngufæri við Elliðaárdal. Í skólanum er hátíðarsalur, sundlaug, íþróttasalur og vel skipulögð skólalóð.

Leiðarljós skólans eru menntun - samvinna - vellíðan en í þessum orðum krystallast þau gildi sem skólinn byggir á. Menntun vísar til aukinnar þekkingar og færni sem skólanum er ætlað að veita nemendum sínum. Samvinna vísar til mikilvægi samstarfs allra þeirra sem tilheyra skólasamfélaginu en jákvæð og góð samskipti og samvinna eru forsendur góðs skólabrag. Vellíðan vísar síðan til þess að góð líðan er forsenda þess að ná árangri.

Allar nánari upplýsingar um skólann og þær áherslur sem hann hefur í námi og kennslu má finna í Boðbera sem er stefna- og starfsáætlun skólans og skólánámskrá sem veitir upplýsingar um námsefni og kennslu í hverjum árgangi fyrir sig. Bæði ritin eru endurskoðuð ár hvert. Skemmri útgáfu af stefnu skólans má finna í stefnukorti sem unnið var árið 2011.

Upphaf skólastarfs í Breiðagerðisskóla

Leikfimisýningar voru ómissandi hér áður fyrr þegar skólinn bauð í heimsókn. Þessi mynd er sennilega frá einni vorsýningunni.

Starfsemi skólans hófst í Háagerði 1954 en var þá útibú frá Laugarnesskóla. Á efri hæð hússins voru 3 kennslustofur en í kallara var salur sem skipt var í tvennt með tjaldi til að búa til tvær kennslustofur.

Vesturálma skólans var fyrst tekin í notkun 1956 en þá hóf Breiðagerðisskóli formlega starfsemi. Miðhúsbyggingin var tekin í notkun ári síðar fyrir utan íþróttahúsið sem var tekið í notkun um 1960. Austurálman var tekin í notkun 1961 en var þá 4 kennslustofur. 1964 var byggð sundlaug við austurálmuna og tvær kennslustofur ofaná hana. Þar eru því 6 kennslustofur á efri hæð en 4 á neðri hæðinni. Auk þess var einnig kennt í Víkingsheimilinu sem þá var staðsett suðaustur af skólanum þar sem nú eru blokkir eldri borgara. Þar var teiknistofa og 4 kennslustofur. Fyrstu árin var skólalóðin ófrágengin og mikil for og drulla sem stundum myndaðist á henni. Þess eru mörg dæmi að kennarar fóru ekki milli húsa sökum forar nema mikið lægi við. Nemendur þurftu að láta sér þetta lynda þar til komið var með möl og síðar malbik.

Skólahverfið náði yfir Bústaðarhverfi, Smáíbúðarhverfi, Blésugróf, Fossvogsbletti, Hvassaleiti og Kringlumýrarbletti vestur að húsi Veðurstofu Íslands. Hverfið samanstóð af býlum, sumarbústöðum, einbýlishúsum og fjölbýlishúsum. Býlin voru til nokkuð áður en skólinn tók til starfa en um svipað leyti og hann byggðist reis blönduð byggð. Nokkuð var um einbýlishúsalóðir og fengu menn nokkuð frjálsar hendur með byggingu á þeim. Þá er átt við að fólk fékk sjálft að vinna við hús sín meira en gerðist í þá daga. Raðhúsaíbúðir sem Reykjavíkurborg byggði voru afhentar með þeim skilmálum að kaupendur þurftu að eiga minnst 5 börn. Til þess að átta sig betur á þessari stöðu þarf að skoða Reykjavík í sögulegu og stærra samhengi. Þetta voru eftirstíðsárin og ætlunin að braggahverfin hyrfu. Það hefur því verið þverskurður af samfélaginu sem sendi börn sín til mennta við Breiðagerðisskóla.

Skólaþroskanámskeið voru haldin á vorin, oft nefnd Vorskóli. Þetta var gert til þess að meta og greina nemendur. Þeim var síðan raðað í bekki eftir getu. Skólinn var mjög fjölmennur fyrstu 20 árin. Flestir nemendur voru skólaárið 1963-1964 eða 1399.

Bekkir voru mjög fjölmennir fyrstu árin allt upp í 35 nemendur í getumestu bekkjunum. Í svokölluðum hjálparbekkjum voru fyrst 18 nemendur en síðan 15 nemendur. Fjöldi bekkja í árgangi var einnig mikill, oftast 8-9. Nemendum fer að fækka þegar Hvassaleitisskóli tekur til starfa árið 1965. Það sama gerist þegar Fossvogsskóli tekur til starfa árið 1971 . Fossvogsskóli tekur inn til að byrja með 6 til 9 ára nemendur. Nemendur úr því hverfi sem hafið höfðu nám við Breiðagerðisskóla luku þar námi og fóru þá í Réttarholtsskóla. Nemendur skólans hafa alltaf farið eftir 12 ára bekk í Réttarholtsskóla sem er unglingaskóli. Um 1978 hafði nemendum fækkað niður fyrir 600 nemendur og var þá hætt að getuskipta í bekki. Það að getuskipta í bekki var sjónarmið hagræðingar en ekki mismununar Við upphaf skólans voru yngri nemendur 3 klst. á dag í skólanum og námsgreinar færri en eru í dag. Til að þjónusta alla íbúa hverfisins á þessu aldursstigi þurfti að þrísetja skólann. Já, takk það voru þrír bekkir sem sátu í hverri skólastofu á hverjum degi 6 daga vikunnar því þá var kennt á laugardögum. Það var einnig kennt í búningsklefa stúlkna og drengja áður en íþróttahúsið var tekið í notkun. 7, 8 og 9 ára nemendur hófu skólaárið 1. sept. en 10, 11 og 12 ára nemendur hófu skólaárið 1. okt.

Nemendur byrjuðu í handmennt 9 ára og í myndmennt 10 ára. Leikfimi og tónmennt voru einu sérgreinarnar sem kenndar voru yngstu nemendunum. Í sérgreinatíma eins og leikfimi, handmennt og smíði þurfti að koma aftur í skólann og stundatafla nemenda því með eyðum.

Aðbúnaður við skólann var annar en er í dag. Kröfur voru líka aðrar en þær eru í dag. Kennarar höfðu ekki vinnuaðstöðu innan skólans. Í núverandi vinnustofu kennara voru áður ljósaböð fyrir nemendur. Ljósaböð áttu að tryggja heilbrigði barna.

Sálfræðingur kemur fyrst um 1960 og var það Jónas Pálsson. Sérdeild var stofnuð haustið 1977 og var Kolbrún Gunnarsdóttir fyrst yfir henni. Sérdeildin var stofnuð upp úr athvarfi sem var fyrir nemendur sem minna máttu sín eða bjuggu við erfiðar aðstæður.

Foreldrafélag var formlega stofnað við skólann 1979. Hafsteinn Hafliðason var fyrsti formaður félagsins og María Finnsdóttir tók við af honum. Foreldrar voru mjög virkir alveg frá upphafi. Sem dæmi má nefna að foreldrar tóku þátt í öllum undirbúningi 25 ára afmælis skólans sem haldið var vorið 1981. Þá voru haldnar miklar leiksýningar. Þeir sáu einnig um kaffisölu á vorsýningum skólans sem haldnar voru af og til.

Á vorsýningum var sýnt smíða og handavinnuverk auk mynda sem nemendur höfðu unnið í myndmennt og ýmis önnur hópverkefni. Nú hafa vorsýningar að mestu verið aflagðar en í þeirra stað komið vorhátíð sem foreldrar, nemendur og kennarar njóta saman. Þetta er eina fjáröflun foreldrafélagsins. Fyrstu lög félagsins er að finna í Borgarskjalasafni Reykjavíkur.

Skólastjórar frá upphafi eru:

1956 - 1973 Hjörtur Kristmundsson (bróðir Steins Steinars)
1973 - 1978 Gunnar Guðröðarson
1978 - 1996 Hrefna Sigvaldadóttir
1996 - 2012 Guðbjörg Þórisdóttir
2012 - 2013 Guðrún Ingimundardóttir
2013 -           Þorkell Daníel Jónsson

Yfirkennarar (aðstoðaskólastjórar) frá upphafi eru:

1956 - 1973    Gunnar Guðröðarson
1973 - 1978    Hrefna Sigvaldadóttir
1978 - 1979   Þórður Kristjánsson
1979 - 1989   Ingibjörg Þorkelsdóttir
1989 - 2006  Ingibjörg Sigurgeirsdóttir
2006 - 2011  Guðrún Ingimundardóttir
2011 -            Guðlaug Ólafsdóttir

Heimildir eru munnlegar og úr gögnum sem geymd eru í Borgarskjalasafni Reykjavíkur.

Heimildarmenn eru:
Hrefna Sigvaldadóttir sem hóf störf við skólann 1957, síðar yfirkennari og skólastjóri.
Betsy Halldórsson sem hóf störf við skólann 1959 og kenndi þar til 2001
Ingibjörg Sigurgeirsdóttir sem hóf störf við skólann 1972

Tekið saman af Sigríði Sigurðardóttur sumarið 2002