Skip to content

Skólahlaup, hrekkjavaka og Covid

Veiruskömmin sem herjar á heiminn er búin að setja ansi margt úr skorðum í skólastarfinu þetta árið og gerir enn. Þegar þetta er skrifað er fyrsti dagur þar sem skólastarf er keyrt eftir hertar aðgerðir til varnar Covid smiti tóku gildi. Það er óhjákvæmilegt að aðgerðirnar hafi einhver áhrif á nám nemenda því við urðum að gera miklar breytingar á skipulagi skólastarfsins. Við gerum samt okkar besta til að áhrifin verði sem minnst og hvetjum foreldra eindregið til að senda börn sín í skólann.

Aðgerðirnar sem við fórum í felast í að skólanum er skipt upp í 12 sótthólf. Í 1. – 4. bekk eru 50 nemendur í hverju hólfi en 25 nemendur í 5. – 7. bekk. Hólfunum er haldið eins aðgreindum og hægt er og hvorki nemendur né starfsmenn fara á milli hólfa. Í 5. – 7. bekk er grímuskylda því við getum ekki tryggt tveggja metra fjarlægð milli fólks. Þessi ráðstöfun hefur í för með sér að list- og verkgreinar ásamt sund og íþróttum verða ekki kennd í þeirri mynd sem venjan er. Í 5. – 7. bekk verður ekki boðið upp á mat í mötuneytinu og þau þurfa að koma með nesti. Tímasetning frímínútna riðlast einnig og skóladagurinn styttist um klukkustund hjá 5. – 7. bekk. Ýmislegt annað er einnig gert til að tryggja betri sóttvarnir.

Þrátt fyrir að veiran raski ýmsu þá gerum við nú ýmislegt sem er skemmtilegt. Í lok september tók skólinn þátt í skólahlaupinu. Allir nemendur tóku þátt, sumir hlupu 2,5 km en aðrir 5 km og auðvitað voru nemendur misfljótir.

Eins og alltaf var fínasta stemming í hlaupinu.

Svona raðaðist í fyrstu sætin:

Stúlkur 2.5 km
1. Áslaug Margrét Alfreðsdóttir,7.bekk
2. Ragnheiður Sara Jónsdóttir, 5.bekk
3. Edera Meucc,i 6.bekk
Stúlkur 5 km
1. Áslaug Margrét Alfreðsdóttir,7.bekk
2. Ragnheiður Sara Jónsdóttir, 5.bekk
3. Edera Meucc,i 6.bekk
Drengir 2.5 km
1. Rafael Ísar Manzi 7. bekk
2. Stefán Hugi Sveinbjörns 7. bekk
3. Einar Dagur Brynjarsson 6. bekk
5. km
1.-2. Einar Dagur og Stefán Hugi
3. Óttar Hrafn Péturs og Gestur Alexander Hafþórs, 5. bekk

Undanfarin ár hefur foreldrafélgið staðið fyrir hrekkjavökuskemmtunum í öllum árgöngum í vikunni fyrir hrekkjavökudaginn sjálfan. Nemendur hafa verið meira en lítið spenntir fyrir skemmtununum en nú var því miður ekki hægt að halda þær. Sem smávegis sárabót var föstudagurinn 30. október hrekkjavökudagur í skólanum. Nemendur og margir kennarar komu í búningum sem hæfa deginum og á dagskránni var hrekkjavökutengt þema í einhverjum kennslustundum.

Nornin sem stóð á miðju sviðinu vakti athygli.