Skip to content

Námsmat

Í 27. gr. Grunnskólalaga frá júlí 2008 kemur fram að mat á árangri og framförum nemenda skuli vera reglubundinn þáttur í skólastarfi. Í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011 er nánar kveðið á um hvernig námsmati skuli háttað.

Mat á hæfni og framförum nemenda er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur námsmats er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námiðog hvernig markmiðum þess verður náð. Markmið námsmatsins er því að fylgjast með hvernig sérhverjum nemenda tekst að ná námsmarkmiðum og örva hann til framfara. Til þess þarf námsmatið að vera órjúfanlegur hluti af daglegu starfi, matsaðferðir fjölbreyttar og leggja skal áherslu á að hjálpa nemendum til raunhæfs sjálfsmats. Markmiðin þurfa að vera skýr þannig að nemendum sé ljóst hvaða viðmið eru lögð til grundvallar matinu. Eitt af viðmiðum um lykilhæfni í grunnskóla sem eru sameiginlegar öllum námssviðum er hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu. Því er mikilvægt að markmið námsins séu skýr þannig að nemendur öðlist færni í að meta hvort þeir hafi náð markmiðunum og geti í samvinnu við kennara fundið leiðir til að bæta úr ef markmiðum hefur ekki verið náð.

Kennarar í Breiðagerðisskóla hafa verið að þróa leiðir til að ná þessum markmiðum. Á hverju hausti er gefin út árganganámskrá þar sem fram koma markmið vetrarins í hverjum árgangi. Markmiðin í árganganámskránni eru unnin út frá greinasviði Aðalnámskrár (2013), en þar er að finna viðmið um lykilhæfni sem tengjast öllum námssviðum og skal jöfnum höndum leggja áherslu á almenna lykilhæfni og sértæka hæfni fyrir viðkomandi grein. Út frá árganganámskrám vinna kennarar skólans upp áætlanir um afmörkuðu verkefni. Þar er gerð grein fyrir markmiðum og námsmatsviðmiðum sem eru birt í matskvörðum. Þannig er nemendum og foreldrum ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar. Áætlanirnar eru birtar í Mentor og eru þannig aðgengilegar foreldrum og nemendum. Kennarar kynna áætlanirnar fyrir nemendum fara yfir markmið verkefna og segja þeim hvað verður metið og með hvaða hætti metið verður. Áhersla er lögð á sjálfsmat en með því er nemendum kennt að meta sjálfir hvort þeir hafa náð þeim markmiðum sem sett voru og finna leiðir til að bæta úr ef þeir hafa ekki náð settum markmiðum. Með þessu fyrirkomulagi teljum við nemendur verða ábyrgari fyrir eigin námi og um leið veiti skólinn foreldrum og nemendum gleggri upplýsingar um námið í skólanum, stöðu nemandans og framvindu námsins. Námsmatið byggist því á fjölbreyttum gögnum sem safnað er með fjölbreyttum aðferðum.

Námsmatsfundir verða tvisvar á þessu skólaári, en þá ræða nemendur, foreldrar og kennarar nám nemenda og líðan þeirra í skólanum. Fyrri fundurinn er í október og þá meta nemendur sjálfir í samvinnu við foreldra sína ýmsa þætti sem tengjast skólastarfinu og náminu í skólanum og verður það ásamt mati kennara til umræðu á fundinum. Annar fundurinn er í janúar og er námsmat kennara birt í Mentor tveimur dögum fyrir námsmatsfundinn. Þetta er gert til að gefa nemendum og foreldrum ráðrúm til að ræða matið sín á milli og undirbúa sig fyrir fundinn. Matið byggist alltaf að einhverju leyti á sjálfsmati nemenda þannig eru þeir þátttakendur í matinu og sér meðvitaðri um framvindu námsins. Að vori verður námsmatið birt í Mentor 1-2 dögum fyrir skólaslitadag og fá nemendur námsmatið afhent við skólaslit. Áfram verður haldið að þróa námsmat skólans í samræmi við nýja Aðalnámskrá næsta vetur.

Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburð einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og foreldrum þeirra. Þó er heimilt að veita þessar upplýsingar vegna flutnings nemenda milli skóla, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.