Skip to content

Stefna skólans og kennsluhættir

Skólanámskrá Breiðagerðisskóla er í stöðugri endurskoðun og er stefna skólans hluti af því ferli. Í Aðalnámskrá grunnskóla, Almennum hluta (2011) segir að í skólanámskrá birtist menntastefna viðkomandi skóla og þar er að finna þau gildi sem starf skólans byggist á. Menntastefna sem birtist í Aðalnámskrá er reist á sex grunnþáttum menntunar og eiga þeir að setja mark sitt á kennslu, leik og nám í skólastarfinu. Þessir grunnþættir eru:

• læsi
• sjálfbærni
• heilbrigði og velferð
• lýðræði og mannréttindi
• jafnrétti
• sköpun

Breiðagerðisskóli leitar leiða til að útfæra þá menntastefnu sem birtist í nýrri Aðalnámskrá og stefnu Reykjavíkurborgar. Í stefnu og starfsáætlun Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar árið 2016 kemur fram að leiðarljós skóla og frístundasviðs eru: að öll börn og ungmenni í borginni eigi kost á menntun og leik við sitt hæfi, þar sem ýtt er undir sköpun og frumkvæði og byggt er á styrkleikum, áhuga og færni hvers og eins. Þeim líði vel, fari stöðugt fram og öðlist uppeldi og menntun sem nýtist þeim í lífinu. Í stefnukorti Skóla- og frístundasviðs kemur m.a. fram að í skólum borgarinnar skuli vinna að sterkri sjálfsmynd og félagsfærni nemenda. Að nám og starf skuli vera án aðgreiningar og við hæfi hvers og eins. Einnig er lögð áhersla á samstarf nemenda sem byggir á lýðræði og fjölbreytni.

Leiðarljós Breiðagerðisskóla

Leiðarljós Breiðagerðisskóla eru: Menntun – Samvinna – Vellíðan.
Í Breiðagerðisskóla er lögð áhersla á að vinna með nemendum að góðum og jákvæðum samskiptum til að skapa jákvæðan skólabrag. Þegar upp koma ágreiningsmál er nemendum kennt að leysa þau friðsamlega og á jákvæðan hátt, taka tillit til annarra og skilja að engir tveir einstaklingar eru eins. Til að öðlast færni í að leysa ágreiningsmál farsællega þurfa allir að temja sér umburðarlyndi og víðsýni og skilja að ágreiningur getur oft verið uppspretta samræðna. Oftar en ekki koma upp nýjar hliðar við úrlausn mála. Við berum öll ábyrgð, starfsfólk, nemendur og foreldrar á því að samfélag barnanna sé vinsamlegt og það gerum við með góðri samvinnu milli heimilis og skóla. Til að viðhalda góðum skólabrag læra nemendur að taka ábyrgð á eigin hegðun, ganga vel um og virða skólareglur. Til þess þurfa skólareglur að vera skýrar og eftirfylgni jákvæð. Einnig þarf skipulag og kennslufyrirkomulag skólans að vera í sífelldri endurskoðun og þróun. Nemendur, starfsfólk og foreldrar þurfa að vinna þétt saman og vera tilbúin að nýta hvert tækifæri sem gefst til að ná settu marki. Í Breiðagerðisskóla teljum við eftirfarandi einkenna jákvæðan skólabrag.

  • Jákvæður skólabragur einkennist af hlýlegri framkomu, umhyggju, kurteisi, virðingu, virkni, sköpun og trú á getu einstaklingsins.
  • Þar sem jákvæður skólabragur ríkir getur fólk leyst úr ágreiningsmálum sínumá friðsaman, umburðarlyndan og jákvæðan hátt.
  • Umburðarlyndi og víðsýni er höfð að leiðarljósi í samskiptum.
  • Jákvæður skólabragur eykur vellíðan, stuðlar að betri samvinnu í leik og starfi og skapar betra námsumhverfi og námsgleði. Jákvæður skólabragur er þannig forsenda menntunar.

Samstarf

Í Breiðagerðisskóla er lítið á hvern árgang sem eina heild. Kennarar árgangsins bera sameiginlega ábyrgð á nemendum og vinna saman að því að skipuleggja nám nemenda. Þetta fyrirkomulag stuðlar að sveigjanleika og býður upp á möguleika að breyta hópum í samræmi við viðfangsefni og aukna samkennslu þar sem það á við. Þannig nýtist styrkur og hæfni starfsfólks nemendum. Nemendum árgangsins er skipt í mismunandi hópa og lögð er áhersla á að nemendur í sama árgangi kynnist vel og fái tækifæri til að vinna saman. Markmiðið með þessu fyrirkomulagi er að efla félagsþroska og félagsfærni nemenda, auka samkennd og þjálfa nemendur í að vinna með ólíkum einstaklingum að fjölbreyttum verkefnum. Þannig læra nemendur að taka tillit til þarfa hvers annars og verða hæfari til að lifa og starfa í lýðræðis þjóðfélagi. Ýmsar leiðir eru færar til að þjálfa nemendur í þessum þáttum en farsælast teljum við að starfið í skólanum bjóði upp á það mikla samvinnu nemenda að þau þjálfist í þessum þætti í gegnum raunveruleg viðfangsefni. Því til viðbótar og sem nauðsynlegur hluti af því ferli er stuðst við sérstakt námsefni sem stuðlar að samskiptafærni nemenda. Það námsefni er notað í lífsleiknitímum. Sameiginleg ábyrgð á námi og líðan nemenda er grunnurinn í stefnu skólans.