Skip to content

Góð gjöf frá fyrrum skólastjóra

Í byrjun þessa skólaárs settu aðstandendur Hrefnu Sigvaldadóttur sig í samband við núverandi skólastjóra Breiðagerðisskóla vegna þess að þeir vildu minnast hennar með gjöf til skólans en hún lést þann 19. janúar, 2020. Skólastarf í Breiðagerðisskóla var rétt nýhafið þegar Hrefna hóf störf við skólann árið 1958 þá rétt tvítug að aldri. Fyrst starfaði hún sem kennari og síðan sem yfirkennari eins og starf aðstoðarskólastjóra kallaðist þá. Árið 1978 tók hún við starfi skólastjóra og gegndi því til ársins 1996 þegar hún hætti störfum við skólann. Þá hafði hún starfað við skólann í hartnær fjörutíu ár.

Á fyrstu árum Hrefnu við skólann var skólinn fjölmennur. Flestir urðu nemendurnir 1399 veturinn 1963 – 1964. Þá var kennt í þremur hollum hvern dag. Fjöldi bekkja var átta til níu í hverjum árgangi og fjöldi nemenda í hverjum bekk allt að 35. Nemendum tekur síðan að fækka eftir að Hvassaleitisskóli tekur til starfa 1965 og Fossvogsskóli árið 1971. Hrefna var ráðin skólastjóri árið 1978 og sætti það nokkrum tíðindum því á þeim árum voru ekki margir kvenskólastjórar.

Hrefnu var sérstuðningur við þá nemendur sem stóðu höllum fæti í náminu hugleikinn. Þess vegna var ákveðið að stoðþjónustan fengi að njóta gjafar aðstandenda Hrefnu og keypt svokölluð bananaborð en þau henta vel í sérkennsluna. Einnig var keypt grafíkpressa fyrir myndmenntina og sýningarhilla.

Starfsfólk Breiðagerðisskóla kann aðstandendum Hrefnu miklar þakkir fyrir þessar góðu gjafir. Þær munu nýtast nemendum skólans um ókomin ár.