Skip to content

Fréttir í upphafi skólaárs 2020 – 2021

Mannabreytingar

Það verða ekki miklar breytingar á starfsliði Breiðagerðisskóla þetta haustið en einhverjar þó. Nokkrir starfsmenn skipta reyndar um hlutverk og síðan erum við að leita að einum stuðningsfulltrúa og kennara í tímabundnar afleysingar. Guðlaug Ólafsdóttir aðstoðarskólastjóri lét af störfum í vor vegna aldurs og Auður Huld Kristjánsdóttir tekur við starfi hennar. Auður er öllum hnútum kunnug í skólanum því hún hefur starfað sem umsjónarkennari til fjölda ára við skólann og einnig sinnti hún námsráðgjöf á síðasta skólaári.

Kristín Pétursdóttir deildarstjóri sérkennslu og stuðnings lét af störfum sem deildarstóri í vor en skólinn mun samt áfram njóta sérþekkingar hennar og reynsl. Hún mun starfa áfram við skólann í hálfu starfi og sinna sérkennslu. Ragna Lára Jakobsdóttir mun taka við starfi hennar sem deildarstjóri. Ragna þekkir vel til skólans því hún hefur bæði starfað sem umsjónarkennari og sérkennari við skólann. Undanfarin tvö skólaár hefur Ragna haldið utan um nemendur með annað móðurmál en íslensku og kennslu þeirra.

 Anna Vigdís Ólafsdóttir tekur við nýju starfi deildarstjóra fagstarfs og kennslu. Hennar hlutverk verður að fylgja eftir og styðja við faglega þætti skólastarfsins. Ákvörðun um að bæta þessu starfi við helgast af fjölgun nemenda og þar með með fjölgun starfsmanna einnig.

Allir kennarar utan tveir ætla að starfa áfram við skólann. Tveir kennarar, Systa og Dóróthea hættu sökum aldurs síðast liðið vor og Áshildur Sveinsdóttir var ráðin í stað Systu. Valgerður og Sigurjóna munu á næsta skólaári sinna sérkennslu í stað umsjónarkennslu sem þær sinntu áður.

Við bjóðum Ásu velkomna til starfa, óskum öðrum til hamingju með nýtt hlutverk og væntum að sjálfsögðu mikils af störfum þeirra.

Lausar kennslustofur og kastalinn

Á síðasta skólaári fékk skólinn þrjár lausar kennslustofur á skólalóðina enda vorum við komin í algera þröng með að rúma alla nemendur vegna fjölgunar. Stofurnar komust reyndar ekki í gagnið fyrr en í október og olli það heilmiklum vandræðum hjá fjórða bekk sem átti að vera í stofunum. Þegar kennslustofurnar voru loksins komnar í gagnið reyndust þær prýðilega að sögn nemenda og kennara. Fjórði bekkur verður í lausu kennslustofunum í vetur. Þegar stofurnar voru settar niður voru leiktækin sem þar voru fyrir fjarlægð. Í staðinn fengum við þennan fallega kastala sem er á myndinni hér fyrir neðan. Við erum viss um að nemendur eru ánægðir með þessi skipti því þeir söknuðu gamla kastalans.

Covid-19

Veiruskömmin heldur áfram að gera okkur skráveifu. Þegar þessi frétt er skrifuð lítur út fyrir að skólastarf fái að ganga fyrir sig með eðlilegum hætti. Að minnsta kosti hvað nemendur varðar en við þurfum að gera ýmsar ráðstafanir til að lágmarka smithættu. Við munum að sjálfsögðu skipuleggja skólastarfið í samræmi við ráðleggingar almannavarna. Við sendum nánari upplýsingar um það rétt fyrir skólabyrjun.

Annars erum við bara spennt að fara að hefja nýtt skólaár og hlökkum til samstarfsins í vetur.