Skip to content

Framkvæmdir í skólanum

Framkvæmdir í skólanum

Lengi höfum við beðið eftir úrbótum á hljóðvistinni í salnum okkar. Salurinn var auðvitað hannaður í sínum tíma sem hátíðarsalur fyrir leiksýningar og tónlistarflutning og er bara ágætur sem slíkur. Um aldamótin voru síðan sett upp mötuneyti í alla skóla og það var einnig gert í Breiðagerðisskóla. Síðan þá hefur salurinn verið nýttur sem matsalur og hátíðarsalur. Núna borða um það bil hundrað börn í einu í salnum í fjórum hollum á hverjum degi. Á hverjum degi fer einnig tónlistarkennsla fram í salnum, þrisvar í vikur er danskennsla þar og öðru hvoru eru sýndar leikskýningar.

Þarfirnar fyrir hljóðburð eru ólíkar eftir því hvort nota á salinn sem hátíðarsal eða matsal. Í matsal þarf að dempa hljóðið en í hátíðarsal þarf hljóð að berast vel frá sviði og út í sal. Þegar við notum salinn sem matsal er hljóðvistin í salnum mjög svo óþægileg. Yfir engu er kvartað meira í skólastarfinu en hávaðanum í matsalnum. Hljóðið endurkastast veggja á milli og venjulegt samtal verður að dómadags hávaða.

Vegna samkomubannsins höfum við ekki verið að nota salinn og tækifærið var gripið og hingað mættu galvaskir iðnaðarmenn og hófu dempunaraðgerðir. Það verður spennandi að sjá eftir helgina hvort hljóðvistin verði ásættanleg í salnum eftir þessar aðgerðir.

Hér er verið að skrúfa hljóðdempandi plötur í loftið.

Nemendum skólans hefur fjölgað aðeins undanfarin ár og í fyrra var svo komið að bæta þurfti við lausum kennslustofum á skólalóðina. Þá þurfti því miður að fjarlægja leiktækin sem þar voru. Það þótti auðvitað ótækt því það eru ekki allt of mörg leiktæki á lóðinni. Borgin samþykkti að setja upp myndarlegan kastala á lóðina í staðinn fyrir leiktækin sem voru tekin vegna skúranna. Það var svo sannarlega ánægjulegt því krakkarnir hafa dálítið kvartað yfir því að það væri enginn kastali á lóðinni. Í vikunni birtust síðan gröfur á skólalóðinni og iðnaðarmenn hófust handa við að setja upp kastalann sem við höfum verið að bíða eftir í vetur.