Skip to content

Framkvæmd skólastarfs og sóttvarnir

Ágætu foreldrar / forráðamenn

Nú hefst skólastarf að nýju og þrátt fyrir að kórónuveiran sé enn að valda usla þá erum við full bjartsýni og tilhlökkunar fyrir komandi skólaár. Í Breiðagerðisskóla fylgjum við að sjálfsögðu fyrirmælum og tilmælum sóttvarnaryfirvalda. Framkvæmd sóttvarna getur verið misjöfn í skólum vegna þess að aðstæður eru ólíkar. Hér erum við fyrst og fremst að vísa til hugmynda um sótthólfaskipulag. Aðstæður í Breiðagerðisskóla bjóða ekki upp á slíkt skipulag nema með mikilli röskun á framkvæmd skólastarfsins. Þess vegna munum við ekki skipta skólanum og skipa nemendum í sótthólf nema í einstaka tilvikum þar sem því verður komið við.

Mikilvægasti þátturinn í sóttvörnunum er að fjölskyldur nemenda og starfsmenn skólans gæti vel að sínum persónulegu sóttvörnum og taki enga áhættu ef grunur vaknar um smit. Þ.e. ef nemandi fær einhver, jafnvel aðeins smávægileg einkenni þá á ekki að senda hann í skólann. Þetta er fyrirkomulagið sem við viðhöfðum síðast liðið vor og það skilaði því að einungis einu sinni kom til þess að nemendahópur í skólanum var sendur í sóttkví.

Hér fyrir neðan eru þau viðmið um framkvæmd skólastarfs sem við störfum eftir.

1. Í grunnskóla og frístundastarfi er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi starfi, þ.m.t. íþróttastarfi, í skólabyggingum með 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks.

2. Mælst er til að grunnskóla- og frístundastarf sé hólfaskipt eins og kostur er í samræmi við aðstæður og stjórnendur nýti fyrri reynslu í útfærslu á skipulagi starfsins. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir röskun á starfsemi komi upp smit og hefta mögulega útbreiðslu innan skólans. Starfsfólk er hvatt til að fara sem minnst milli rýma/hólfa. Það er þó heimilt ef aðstæður krefjast og í þeim tilvikum skal gæta vel að persónubundnum sóttvörnum.

3. Sé ekki unnt að tryggja 1 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks verður að nota andlitsgrímur. Starfsfólki ber ekki skylda til að nota andlitsgrímur í samskiptum við grunnskólabörn.

4. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og starfsfólk grunnskóla og frístundastarfs.

5. Nemendur eru undanþegnir 1 metra nálægðartakmörkun og grímuskyldu, en eru hvattir til fyllstu varkárni og huga að persónubundnum sóttvörnum.

6. Foreldrar og aðstandendur mega koma inn í skólabyggingar en skulu gæta að persónubundnum sóttvörnum og bera andlitsgrímur. Stjórnendum er heimilt að takmarka enn frekar komu gesta.

7. Skólasetningar / fundir með foreldrum sæta þeim takmörkunum að fjöldi miðist við að foreldrar geti gætt 1 metra nálægðartakmörkun, grímuskylda viðhöfð og gætt sérstaklega vel að persónubundnum sóttvörnum. Aðeins eitt foreldri mæti með hverju barni. Ekki verði boðið upp á veitingar á fundum fyrir foreldra og salernisaðstaða takmörkuð. Gætt verði að sýnileika handspritts í grunnskólanum. Lagt til að halda frekar fjarfundi eða streyma fundum. Stjórnendum er heimilt að takmarka aðgengi foreldra og eða gesta enn frekar meti þeir aðstæður með þeim hætti.

8. Á viðburðum tengda starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrum, upplestrarkeppnum o.fl., ber að viðhafa ofangreindar takmarkanir.

9. Aðrir sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu gæta 1 metra nálægðartakmörkun, bera andlitsgrímur og gæta að persónubundnum sóttvörnum.

10. Mælst er til að ekki séu fleiri en 100 nemendur í hverju rými/hólfi. Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, sem og í mötuneytum og skólaakstri, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun að því gefnu að starfsfólk noti andlitsgrímu og fylgi almennum ráðleggingum varðandi persónubundnar sóttvarnir

11. Gæta þarf ýtrustu sóttvarna á starfsmannafundum og að 1 metra nálægðartakmörk séu alltaf virt.

12. Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar eftir hvern dag og milli hópa í sama rými.

13. Útlán eða afnot af skólabyggingum til utanaðkomandi hópa skal takmörkuð eins og kostur er.