Skip to content

Þegar við komum með barnið í skólann á morgnana

Við skólann skapast ávallt hætta á morgnana þegar hundruð barna koma á sama tíma að skólanum. Þeim er ýmist ekið, þau koma gangandi eða á hjóli. Við viljum lágmarka slysahættu eins og mögulegt er. Það krefst þess að allir gæti fyllstu varúðar og fari eftir þeim leiðbeiningum sem skólinn sendir frá sér. Hér fyrir neðan eru leiðbeiningar sem allir eru beðnir um að lesa.

Göngum í skólann

Besta leiðin til að draga úr hættu vegna umferðarinnar er að draga úr umferðinni. Þess vegna beinum við þeim tilmælum til foreldra / forráðamanna að aka börnum sínum ekki í skólann nema brýna nauðsyn beri til og ganga í staðinn. Við mælum með því að foreldrar fyrstu bekkinga gangi með börnum sínum í skólann og kenni þeim í leiðinni hvað beri að varast og hver sé besta leiðin.

Bílastæði starfsmanna

Bílastæðin vestan megin við skólann eru hugsuð sem stæði fyrir starfsmenn og þá sem eiga erindi í skólann. Foreldrar eiga alls ekki að aka inn á þau á morgnana þegar nemendum er ekið í skólann. Það er margendurtekin saga að legið hafi við að bakkað hafi verið yfir barn sem er á leið í skólann. Það er hins vegar í lagi að nota þessi stæði þegar fólk á erindi í skólann á miðjum degi og þegar börn eru sótt í Marsbúa (frístundaheimilið). Þá eru fáir á ferð nema þegar frímínútur eru. Þá skal að sjálfsögðu gæta fyllstu varúðar

Sleppistæðin

Neðan við skólann að norðanverðu eru stæðin sem hugsuð eru fyrir foreldra / forráðamenn til að hleypa börnum sínum úr bílum á morgnana. Þessi stæði eru einnig hugsuð fyrir rútur þegar verið er að sækja nemendur eða skila nemendum úr ferðum sem farnar eru á vegum skólans. Þessi stæði eru fá og því biðjum við fólk um að tefja ekki á þessum stæðum. Einnig má aka meðfram íþróttahúsinu inn á stæðin framan við Austurálmu skólans og sleppa börnunum úr bílum þar.

Innakstur að Sólbúum

Merkið hér til vinstri þýðir að það sé bannað að stöðva ökutæki. Það er staðsett fremst í innakstrinum að aðstöðu Sólbúa í Háagerði. Við biðjum foreldra um að virða merkið og hleypa börnum sínum ekki úr bílum þar sem þessi merki eru. Þarna skapast oft hætta því borið hefur á því að ökumenn bakki síðan út í götuna í stað þess að aka áfram inn götuna og nota hringtorgið inns í henni. Það er kjörið í stað þess að stoppa þarna að aka aðeins innar og stöðva í stæðunum aftan við austurálmu skolans.

 

Ef allir fara eftir ofangreindum leiðbeiningum drögum við mjög úr hættunni sem skapast af bílaumferð við skólann. Við áréttum þó aftur að best er að ganga.