Skip to content

Skólareglur Breiðagerðisskóla

Jákvæður skólabragur er forsenda þess að nemendum líði vel í skólanum. Skólareglur sem
skólasamfélagið hefur sameinast um er ein af leiðum til að viðhalda jákvæðum skólabrag.
Foreldrar/forráðamenn eru beðnir að fara vel yfir reglur skólans með börnunum. Gott er að
minna á að til þess að við getum lifað í sátt og samlyndi þurfa allir að virða reglur og fara eftir
þeim, bæði börn og fullorðnir.

Í Breiðagerðisskóla gilda almennar samskiptareglur. Við viljum skapa vellíðan og
öryggi allra sem í skólanum starfa.

Verum stundvís:

 • Mætum alltaf á réttum tíma í allar kennslustundir.
 • Bönkum áður en við göngum inn í kennslustofuna og biðjumst afsökunar ef við komum of seint.
 • Förum ekki út af skólalóð á skólatíma án leyfis.
 • Verum öll úti í frímínútum.

Verum kurteis og tillitssöm

 • Verum góð og tillitssöm hvert við annað.
 • Truflum ekki í kennslustundum.
 • Sýnum öllum kurteisi.
 • Stríðum ekki og höfum engan útundan.
 • Vöndum orðbragð okkar.
 • Leysum ágreiningsmál friðsamlega.
 • Biðjumst fyrirgefningar þegar það á við, fyrirgefum.
 • Skemmum ekki leiki annarra.
 • Köstum ekki snjóboltum að skólanum.
 • Komum ekki með leikföng í skólann án samþykkis kennara.
 • Ekki er leyfilegt að hafa kveikt á farsíma á skólatíma.

Verum snyrtileg í umgengni

 • Göngum snyrtilega um, bæði úti og inni.
 • Virðum eigur skólans og annarra.
 • Verum ábyrg gagnvart öryggi okkar og annarra:
 • Hjólum ekki og notum engin hjólatæki á skólalóðinni.
 • Göngum rólega, hlaupum ekki innan húss.
 • Boltaleikir eru ekki leyfðir á göngum skólans.

Um skólareglur

Í 14.grein Grunnskólalaga nr.91/2008 stendur: ,,Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennarar og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkini. Ef hegðun nemenda reynist verulega áfátt ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leitar leiða til úrbóta eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda.”

Skólareglur eru m.a. byggðar á reglugerð um skólareglur í grunnskólum nr.270/2000 en þar stendur m.a.:

Hver grunnskóli skal setja sér skólareglur sem skylt er að fara eftir. Skólastjóri kennarar og aðrir starfsmenn, nemendur og forráðamenn þeirra skulu í sameiningu kosta kapps um að starfsandi og skólabragur í skólanum sé sem bestur og eiga skólareglur að stuðla að því. Forsendur góðs starfsanda eru vellíðan, gagnkvæmt traust, virðing og samábyrgð allra í skólasamfélaginu. Í sömu reglugerð stendur að starfsmönnum skóla sé óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Í tilvikum sem þessum skal ávallt greina forráðamönnum tafarlaust frá málavöxtum.

Viðurlög við brotum á skólareglum

Skóla – og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur samið verklagsreglur fyrir skóla til að vinna eftir þegar upp koma vandamál. Tilgangur verklagsreglna er að tryggja rétta meðhöndlun mála sem varða nemendur sem eru með hegðunar og samskiptavanda, skólasóknar- og ástundunarvanda og nemendur sem brjóta skólareglur með alvarlegum hætti. Með alvarlegum brotum á skólareglum er átt við: alvarlegt ofbeldi, þjófnað, innbrot í skóla þar með talið í tölvukerfi, skemmdarverk, veggjarkrot, áfengis- og fíkniefnaneyslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Þessar reglur gilda fyrir nemendur sem stunda nám í grunnskólum sem reknir eru af Reykjavíkurborg.

Verklagsreglur skóla- og frístundasviðs

Í Breiðagerðisskóla er unnið samkvæmt verklagsreglum Skóla – og frístundasviðs

Reykjavíkurborgar. Ef skólareglur eru ekki virtar er tekið á málum með þessum hætti:

 1. Kennari ræðir sérstaklega við nemanda brjóti hann skólareglur og hvetur
  nemandann til að bæta sig. Kennari skráir niður lýsingu á brotinu í Mentor.
 2. Ef um endurtekið brot er að ræða hefur kennari samband við foreldra/forráðamenn og hvetur þá til að aðstoða nemandann. Samskiptin eru skráð í Mentor .
 3. Ef ekki tekst að leysa vandann er málinu vísað til skólastjóra
 4. Skólastjóri eða aðrir skólastjórnendur í umboði skólastjóra halda fund með foreldrum/forráðamönnum og nemenda þar sem hvatt er til umbóta. Umsjónakennari er einnig á fundinum. Fundargerð er skráð sem allir fundarmenn samþykkja.
 5. Ef ekki næst viðunandi árangur vísar skólastjóri málinu til nemendaverndarráðs til kynningar og umfjöllunar og sérfræðingum frá Þjónustumiðstöð er kynnt málið.
 6. Sérfræðingur frá Þjónustumiðstöð vinnur með foreldrum/forráðamönnum og skóla að lausn málsins.
 7. Ef ekki finnst viðunandi lausn fyrir nemandann þá er málið tilkynnt til Barnaverndar og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.
 8. Teymi er stofnað um málið. Þjónustumiðstöð hverfisins leiðir teymið ef um hegðunar og samskipta vanda nemenda er að ræða og ber ábyrgð á vinnu þess. Á meðan unnið er í málinu getur nemandinn verið í heimaskóla, tímabundinni brottvísun eða í öðru sérúræði.
 9. Þegar um skólasóknar- og ástundunarvanda nemenda er að ræða vinnur skólinn áætlun í samvinnu við foreldra og þjónustumiðstöð hverfisins. Ef ástandið lagast ekki er málið tilkynnt til Barnaverndar Reykjavíkur.

Ef upp kemur ágreiningur milli skóla og foreldra/forráðamanna geta aðilar leitað eftir ráðgjöf hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar.

 1. Þjónustumiðstöð vinnur með Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur að málinu og er málinu vísað til Barnaverndar Reykjavíkur ef ástæða er til.
 2. Teymi er stofnað um málið. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur leiðir teymið og ber ábyrgð á vinnu þess.
 3. Ef nemendur hafa mætt tíu sinnum of seint í kennslustund í mánuði er haft samband við foreldra. Ef mætingar lagast ekki er foreldri ásamt barni boðað í viðtal við umsjónarkennara og leitað leiða til að bæta ástundun. Ef ástundun lagast ekki er málinu vísað til skólastjóra sem vinnur áfram með málið.
 4. Ef nemendur virða ekki skólafélaga sína í frímínútum, kasta snjó og hrekkja á annan máta og taka ekki tiltali, þurfa þeir að vera inni í frímínútum í einhvern tíma. Sama gildir um nemendur sem endurtekið sýna starfsmönnum skólans ókurteisi og fara ekki eftir fyrirmælum starfsfólks.
 5. Ef nemendur lenda í útistöðum við önnur börn eða starfsmenn skólans og komið er með nemandann á fund umsjónakennara eða skólastjórnenda getur nemandi átt von á því að þurfa að hringja sjálfur í foreldri/forráðamann og segja frá atvikinu. Foreldrar tala síðan við skólastjórnendur eða umsjónakennara.
 6. Ef nemendur nota hjólatæki á skólalóðinni er fyrst rætt við nemandann. Ef nemandinn brýtur aftur af sér er haft samband við foreldra. Við endurtekin brot eru foreldrar beðnir um að sjá til þess að nemandinn komi ekki á hjólatæki í skólann.
 7. Ef nemendur hafa kveikt á farsíma á skólatíma er fyrst rætt við nemandann og hann beðin að slökkva á símanum. Ef nemandinn brýtur aftur af sér er haft sambandi við foreldra. Við endurtekin brot eru foreldrar beðnir að sjá um að nemandinn komi ekki með síma í skólann.
 8. Ef nemandi verður uppvís að þjófnaði á eigum skólans eða eigum annarra getur umsjónakennari vísað málinu til skólastjóra. Skólastjóri eða skólastjórnendur í umboði skólastjóra leysa málið í samvinnu við foreldra. Ef ekki tekst að leysa málið er málinu vísað til nemendaverndarráðs.
 9. Ef nemandi verður uppvís að alvarlegum brotum á skólareglum s.s. grófu ofbeldi getur skólastjóri eða skólastjórnendur í umboði skólastjóra vísað málinu til lögreglu. Skólastjóri getur gripið til tímabundinnar brottvikningar nemenda. Ef í ljós kemur að um alvarlegt lögbrot er að ræða vísar lögreglan málinu til Barnaverndar Reykjavíkur. Fulltrúi Barnaverndar kallar til fundar fulltrúa þjónustumiðstöðvar hverfisins, Skóla ogfrístundasviðs Reykjavíkur, skóla og foreldra viðkomandi nemanda. Teymi sem Barnavernd Reykjavíkur leiðir vinnur að lausn málsins. Ef ekki finnst viðunandi lausn innan heimaskóla sér Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur um að útvega nýtt skólaúrræði.
 10. Ef nemandi verður uppvís að skemmdarverkum á eigum skólans er málinu vísað til skólastjóra. Skólastjóri eða skólastjórnendur í umboði skólastjóra leita lausna í samvinnu við foreldra/forráðamenn. Ef um endurtekin skemmdarverk er að ræða getur skólinn krafið foreldra/forráðamenn um skaðabætur og /eða vísað nemanda tímabundið úr skóla.
 11. Ef nemandi virðir ekki skólareglur í vettvangsferðum og tekur ekki tiltali getur nemandi átt von á að vera meinað að taka þátt í vettvangsferð/um á vegum skólans.
 12. Ef nemandi fer ekki eftir skólareglum eða verður uppvís að alvarlegum brotum á skólareglum í ferðalögum eða vettvangsferðum á vegum skólans geta umsjónakennarar í umboði skólastjóra sent nemandann heim á kostnað foreldra.